Saturday, September 17, 2011

Þverstæður

Forn-Grikkir eyddu miklum tíma í að reyna að skilja heiminn. Þales frá Míletos áttaði sig t.d. á því að hlutir geta breyst úr einu efni í annað. Einfalt dæmi er hvernig maturinn breytist í þig. Við þessa uppgötvun varð heimspekin til. Og vísindin líka. Þales var með þeim fyrstu, ef ekki sá allra fyrsti, til að velta fyrir sér náttúrufræðilegum skýringum á heiminum – en ekki goðsagnarkenndum. Menn hafa nefnilega, þrátt fyrir að hafa alltaf viljað skilja umhverfi sitt, hlaupið auðveldustu leiðina að því – og útskýrt allt með vísan í eitthvað yfirnáttúrulegt, guðlegt eða galdra.

En Þales gekk of langt. Honum fannst að fyrst eitt efni geti breyst í annað þá geti öll efni á endanum breyst í eitt efni. Og hann hélt að heimurinn allur væri úr einu frumefni – sem öll önnur efni yrðu til úr.

Röksemdafærslan var reyndar nokkuð sannfærandi og byggði bæði á rökhugsun og athugunum.

Hugsun okkur að stór hluti næringarinnar komi úr matjurtagarðinum okkar. Þar erum við með gulrætur, epli, kál og fleira. Til þess að fá þetta grænmeti þurfum við að sá fyrir því. Frjóin fáum við úr eldri gulrótum, eplum o.s.frv. þannig að þau útskýra sem slík ekki hvaðan þetta kemur allt. En það er ofsalega mikill munur á fræi og heilum ávexti. Fræið verður að ávexti sem síðan myndar nýtt fræ. Það sem lætur ávöxtinn stækka og þroskast er það sem ávöxturinn er búinn til úr.

Og hvað þarf til að láta ávöxt stækka.

Það þarf vatn. Og það þarf mold.

Vatnið fellur af himni. En hvaðan kemur moldin?

Jú, Þales bjó við sjó og tók eftir einu. Skoðaðu þessa mynd:


Þetta er Akureyri.

 

Og þetta er Hjalteyri, sem er líka við Ejafjörð – bara aðeins norðar.

Landnámsmenn Eyjafjarðar, Helgi magri og Þórunn hyrna byggðu sér bæ þar sem heitir Kristnes. Þegar þau settust þar að var Kristnes alveg við sjó. Í dag eru margir kílómetrar út í fjöru. 

Hvernig skyldi standa á því?

Jú, það er sama ástæða fyrir því og fyrir þessum undalegu eyrum sem standa út í Eyjafjörð. Eyrarnar voru ekki þarna en hafa myndast smám saman. Þar sem einu sinni var bara sjór skagar núna land út í fjörðinn.

Sumstaðar myndast ekki svona eyrar heldur óshólmar. 


File:Nile River and delta from orbit.jpg

Hér sérðu hvar áin Níl rennur út í miðjarðarhafið. Niður eftir öllu Egyptalandi rennur hún sem eitt straumfljót en þar sem hún kemur til hafs myndar hún breiða árósa með mörgum hólmum. Þú sérð líka hvernig Níl hefur stækkað Egyptaland út í Miðjarðarhafið. Og ef þú tekur vel eftir sérðu að það er verið að byggja enn meira við landið úti við ströndina þar sem sjórinn er fullur af aur og leðju.

Eyri er úr aur (leðju) og Þales tók eftir því að eyrar byggjast upp við sjó. Alltíeinu er komið land þar sem ekkert land var. Og það virtist ekkert þurfa ... nema á. Og á er úr vatni. 

Af þessu dró Þales þessa ályktun: Aurinn (moldin) verður til í vatni og er þessvegna búin til úr vatni.

Ertu sammála þessari ályktun?

En ef moldin sem ég rækta grænmetið í er búin til úr vatni og það þarf vatn til að grænmetið og ávextirnir vaxi þá er margt heimskulegra en að segja að ávextirnir og grænmetið sé ... vatn.

Og það hélt Þales.

Heimspekin og vísindin voru fædd.

Leið nú nokkur tími og heimspekingar (sem voru hinir fyrstu náttúruvísindamenn) komu sífellt með flóknari hugmyndir um veruleikann – þar til kom fram á sjónarsviðið náungi sem hét Parmenídes. Hann hélt því fram að Þales og aðrir sem væru að reyna að skilja heiminn væru á tómum villigötum. Það væri ekki nóg að horfa á heiminn því ef maður hugsaði aðeins þá sæi maður (ekki með augunum) að heimurinn er alltöðruvísi og flóknari en hann virðist í fyrstu. Lærisveinn hans Zenón útskýrði pælinguna á bak við þetta mjög vel í nokkrum dæmum sem varðveist hafa í eðlisfræðiritum Aristótelesar (sem var langmesti vísindamaður fornaldar).

Dæmi Zenóns kallast þverstæður. Þverstæða merkir að eitthvað stangast á, passar ekki saman. En það er ómögulegt að vita hvort er rétt.

Tökum dæmi: Ör er skotið í mark. Við sjáum að hún fer frá einum stað á annan á ákveðnum tíma. En hugsum nú augablik hvar hún hafi verið rétt eftir að henni var skotið af stað. Hún var í loftinu. En hvar. Getum við bent á einhvern ákveðinn punkt og sagt að örin hafi verið nákvæmlega þar? Ef svo er þá erum við að segja að á tilteknu augnabliki hafi örin verið kyrr á tilteknum punkti. En augnabliki seinna hafi hún verið komin á annan punkt aðeins nær markinu. Að leið örvarinnar í mark sé röð af kyrrstæðum augnablikum. En örin getur ekki verið kyrr og að hreyfast í einu og ef hún er að hreyfast þá getur hún ekki verið kyrr, það er enginn staður sem hægt er að benda á að hún hafi verið á.

Ég veit þetta virkar flókið. Enda reiknaði Aristóteles með því að menn væru svo fimir í rökhugsun að þeir réðu vel við að skilja þetta svona. En ætli flest venulegt fólk klóri sér ekki bara í hausnum og segi: „Og hvað?“

Kannski þess vegna voru þverstæðurnar margar. Og sú skýrasta er kannski þessi:

Maður ætlar út úr herbergi. En áður en hann getur farið út úr herberginu þarf hann að ganga hálfa leiðina að dyrnum. Hversu oft þarf hann að labba hálfa leiðina út áður en hann kemst út?

Hugsaðu þig vel um.

Zenón segir: endalaust oft. Því hann þarf alltaf að fara helminginn af leiðinni sem er eftir sama hversu hún er orðin stutt. Og ef maður þarf að ganga endalaust oft eftir leiðinni út þá tekur það endalausan tíma. Maður kemst því aldrei út!

En nú vitum við að maður kemst út.

Og þar liggur þverstæðan. Zenón var ekki að reyna að sanna að maður kæmist ekki út úr herbergjum. Hann var að sanna að maður ætti ekki að geta það ef heimurinn virkaði eins og maður heldur að hann eigi að virka. Og þar af leiðandi: að heimurinn sé ekki eins og við höldum að hann sé. Að hann sé blekking.

Það er nefnilega ekki nóg sönnun að maður sjái eitthvað eða geri eitthvað. Þú getur komið löðrandi sveitt úr hlaupi og hitt mann sem segir: „Þú veist þú hljópst ekki neitt, er þa ekki?“ Og þegar þú ætlar að hlæja að honum fyrir heimskuna hringir vekjaraklukkan og þú fattar að þetta var draumur. Parmínedes og Zenón sögðu að heimurinn væri þannig. Hreyfingin væri blekking, einhverskonar draumur. Það væri hægt að sanna það með því að skoða hreyfinguna, hún meikar ekki sens.

Síðan eru liðin nærri 2.500 ár. Vísindum hefur fleygt fram. Við höfum skoðað smæstu hluti í smásjám og fjarlægustu hluti í stjörnusjónaukum. En samt er ég hræddur um að venjulegur nútímamaður gæti lítið sagt til að stinga upp í Zenón eða Parmínedes ef nútímamaðurinn kæmist einhvernveginn til Grikklands hins forna.

En það var svosem reynt. Einhverjir sögðu að heimspekingar væru bara furðufuglar sem ekkert mark væri takandi á. En einn stakk upp á lausn. Og það merkilega var að lausnin byggði ekki á því að sanna að skynfærin væru betri til að skilja heimin en skynsemin. Hann notaði skynsemina til að ganga lengra.

Það var Demókrítos. 

Demókrítos sagði: Það var rétt hjá Þalesi að heimurinn væri búinn til úr efnum sem geta myndað önnur efni. En í stað þess að leita að einu efni í kringum okkur sem býr til öll hin hefði Þales átt að hugsa um hvað veldur því að efnin geta þetta.

Mold og vatn geta breyst í epli og epli getur breyst í kjöt. Af þessu leiðir að það er hægt að taka mold í sundur og setja saman upp á nýtt sem hluta af epli. Mold er úr einhverjum einingum sem hægt er að kubba úr. 

Í raun höfum við ástæðu til að ætla að allt efni sé svona. Búið til úr pínulitlum kubbum sem hægt er að púsla saman í stærri hluti. 

Og þessi hugmynd smellpassaði við veruleikann. Hlutir hverfa og birtast. Og þótt Parmínedes og Zenón hafi sagt að það hljóti að vera eitthvað rugl, þá er það rosalega rökrétt ef hlutirnir breytast svona vegna þess að þeir eru búnir til úr minni hlutum sem raða sér bara saman upp á nýtt. Og ef þessir litlu hlutir eru óbreytanlegir og eilífir þá er vandamálið að vissu leyti úr sögunni. Og næstum örugglega ef við ákveðum að þessir hlutir séu svo litlir og sterkir að það sé ekki hægt að brjóta þá í sundur í minni kubba.

Þá er hægt að segja: leiðin út úr herberginu er skrilljón milljón kubba löng. Það er hægt að fara hálfa leið út ákveðið oft, en þegar það er bara einn kubbur eftir þá er ekki hægt að fara álfa leið því helmingurinn af svona kubbi er ekki til. Kubburinn er minnsta eining veruleikans. Það verður því að fara einn kubb enn, og þá er maður kominn út.

Nú veit ég ekki hversu sannfærandi þér finnst rök Demókrítosar. En það er heilmikil glóra í þessu hjá honum er það ekki?

Þessa kubba kallaði hann a-tomos, ó-deili. Eitthvað sem ekki er hægt að skipta upp. Ódeilanlegt. Óskiptanlegt. Frumeind. Atóm.

No comments:

Post a Comment