Saturday, September 3, 2011

Að uppgötva sjálfan sig



.

Sérðu punktinn?

Þessi punktur ert þú. Þú byrjaðir sem okfruma (frjóvgað egg) sem var næstum nakvæmlega jafn stór og punkturinn í lok þessarar málsgreinar.

Settu höndina á skjáinn við hliðina á punktinum. Ótrúlegt, ekki satt? Að heil manneskja skuli hafa komið úr einum litlum punkti. 

Á einhverjum tímapunktri byrjaðir þú að skynja heiminn í kringum þig. Kannski var það strax í móðurkviði. Þú heyrðir hljóð, sást liti og rakst þig í. Breytir um stellingar og fékkst hiksta. 

Svo fæddist þú. 

Og heimurinn þinn stækkaði á einu augnabliki enn meira en þú hefur stækkað úr þessum punkti.

Þegar þú eignast lítið systkini eða lítið barn lærir þú að raunverulega það eina sem gera þarf fyrir barnið fyrsta árið er að láta því líða vel. Halda því hreinu og heitu og gefa því að borða. 

Ja, og reyndar eitt enn. Það þarf að leika við barnið. Hefur þú einhverntímann pælt í því hvernig leiki maður fer í við oggulítil smábörn. Leggur maður þau á gólfið og kastar í þau bolta? Setur þau út í horn og fer í feluleik?

Nei. 

Næstum ósjálfrátt högum við stóru manneskjurnar okkur allar eins þegar við erum ein með pínulitla fólkinu. Við látum þau grípa í fingurna okkar, syngjum „þumalfingur, þumalfingur, hvar ert þú...,“ gerum gjugg í borg og tökum í tásurnar og segjum með skærri smábarnarödd: „Hver á svona sætar tásur?“

Við spyrjum ekki vegna þess að við vitum ekki svarið. Við spyrjum vegna þess að þau vita ekki svarið. Pínulítil börn hafa ekki hugmynd um hver á þessar tásur. Þau vissu ekki einu sinni að þetta hétu tásur til að byrja með. Þú hefðir eins getað dregið upp kleinuhring.

Við fæðumst með stóran haus og lítin búk. Það þýðir að fyrstu vikurnar gerum við fátt annað en að liggja á bakinu og horfa upp í loftið. En þessi stóri haus gerir það að verkum að smám saman förum við að læra.

Í dag getur verið að þú notir orðtakið að þekkja einhvað jafnvel og lófann á þér. Það merkir að þekkja eitthvað mjög vel. Þekkja það svo vel að það sé eiginlega ekki hægt að þekkja það betur. En skyldir þú þekkja lófann á þér sérlega vel? Myndir þú þekkja þinn lófa á mynd? Ertu viss?

Þú ert enn að læra að þekkja sjálfa þig. Heilinn á þér er orðinn nógu stór og nógu þroskaður til að það sé hægt að byrja á öðrum kafla í uppskriftabókinni sem var þessi litli punktur. Operation: Fullorðinn er hafin.

Innan í þér er verið að breyta öllum fjandanum. Efnum er dælt út í blóðið sem aldrei hafa fengið að koma þangað áður. Frumurnar hamast við að reyna að taka við þessum efnum og breyta vinnubrögðunum í framhaldinu. Sumar frumur éta sundur bein alla daga meðan aðrar byggja ný bein svo þú dettir ekki í sundur. Markmiðið er að gera þig sjálfstæða. Sjá til þess að þú getir, í neyð, séð um þig sjálfa ef á þarf að halda. Og að þú getir séð um aðra.

Ef þú ert stelpa þá bíða öll börnin þín þegar innan í þér. Þú fæddist með öll eggin sem þú munt nota um ævina. Þau bíða róleg í eggjastokkunum þínum. Smám saman telur líkaminn óhætt að taka sénsinn á að egg hitti sáðfrumu og sendir það af stað. Á sama tíma tekur þú heil ósköp af blóði og næringu og hleður innan á veggina í leginu. Barnið verður að fá eitthvað að borða ef það skyldi vera á leiðinni.

Svo siglir þetta egg eitt og yfirgefið niður eggjaleiðarana. Ef það frjóvgast ekki fer það sína leið burt úr líkamanum. Og er úr sögunni. Molnar niður og hverfur. Og á eftir því kemur blóðið og næringin. Og þú ferð á túr.

Eitt egg                                                           .

Smábarnið þekkir ekki á sér tærnar. En ert þú mikið skárri. Hver ert þú? 

Hvaða hæfileikum býrðu yfir? Við hvaða aðstæður ertu hamingjusömust? Hvaða matur gefur þér mesta orku? Hvernig strákum verður þú hrifin af? Eða stelpum? Hvers vegna segirðu sumt af því sem þú segir? 

Það er eitt við þig sem þú veist næstum örugglega ekki. Eða hefur allavega ekki hugsað út í. Það fer einhvernveginn framhjá öllum. Fyrr en mjög seint. Og þegar maður uppgötvar það þá hugsar maður: Bara ef ég gæti farið aftur í tímann og talað við mig þegar ég var sextán. En það er ekki hægt. 

Viltu vita hvað næstum allir myndu segja við sjálfa sig ef þeir gætu sent bréf aftur í tímann?

Það er ekki sérlega flókið. 

Menn myndu segja: 

Ekki gleyma að þú ert líka ég.


Já, þeir myndu minna þig á að þú ert ekki bara eitthvað. Þú ert líka einhvertíma. Sextán ára manneskja er búin að lifa einn fimmta ævinnar. Litli putti er kominn. Allir hinir eftir. 

Þú ert nefnilega svo miklu meira en litli putti. Þú ert öll höndin.

Alveg eins og punkturinn var þú þá ert þú líka þú þegar þú verður tvítug eða þrítug eða fimmtug. 

Hugsaðu þér að höndin á þér virkaði þannig að þú gætir aðeins notað einn fingur í einu. Hversu margt gætir þú ekki gert?

Þú gætir ekki skrifað (nema mjög hægt á tölvu), þú gætir ekki gripið utan um neitt. Þú gætir í raun voða fátt. Það væri alveg jafn gott að hafa bara einn fingur en ekki fimm.

Og hugsaðu þér ef vorið væri tekið úr sambandi við sumrið. Og sumrið við haustið. 

Það væri fínt. Í smá stund. Eða þar til maður uppgötvaði að allt það virkilega mikilvæga tekur tíma. Þarf tíma. Maður fer út í garð og sáir pínulitlu fræi (álíka stóru og punktur) í mold. Nokkrum mánuðum seinna á maður nóg að borða. 

Af hverju myndi fullorðna þú vilja minna þig á að þú ert líka hún? Jú, af tveim ástæðum. Hún man hvernig var að vera þú. Hún veit að þegar maður er unglingur þá lifir maður í núinu. Núna er allt. Allt sem maður gerir ræðst af því hvaða afleiðingar það hefur fyrir mann núna. Unglingi dytti ekki í hug að gróðursetja tré sem hann þyrfti að bíða í tíu ár eftir að yrði stórt. Unglingi dytti ekki í hug. Fyrir unglingi  kemur hann sjálfur eftir tíu ár eða tuttugu honum ekki við. Ekki frekar en tærnar komu honum við þegar hann var vikugamall.

Þú ert enn að uppgötva þig. Þú átt eftir að uppgötva að þú átt sjálfa þig að miklu lengur en þú heldur. Þú átt eftir að verða svo miklu meira en þú ert nú. Þú ert bara byrjunin. Þú átt eftir að skipta svo miklu meira máli en þú gerir nú. Þú átt eftir að deila þessu lífi með öðru fólki. Fólki sem þú elskar, jafnvel meira en sjálfa þig. Þú átt eftir að fá hugmyndir sem enginn í milljarðasögu mannkins hefur hugsað. Af öllu því fólki se byggir heiminn átt þú eftir að vera sú manneskja sem skiptir einhvern annan öllu máli. Börnin þín, makann þinn, vin þinn.

Þú átt eftir að elska, hlæja, gráta oftar og af meiri dýpt en þú hefur nokkru sinni gert. Þú átt eftir að rifna úr stolti og skjálfa úr skömm. Þú átt allt eftir. Þú ert nöglin á litlaputta. Það eru fjórir eftir. Og þessir fjórir eiga eftir að koma þér stöðugt á óvart. 

Hugsaðu þér ef okfruman færi að velta fyrir sér framtíðarhorfum sínum. 



Hvað get ég?


Hún kæmist ekki einu sinni af sjálfsdáðum upp stiga. Kæmist ekki til enda þessarar setningar. Hún situr föst.

En við skulum ekki vorkenna fullorða þér of mikið. Hann er sjálfur fastur í sínu núi – þótt yfirsýn hans yfir farin veg gefi honum kærkomið tækifæri til að messa yfir þér nú. Ef hann settist nú niður sjálfur og hlustaði þá gæti hann heyrt í ennþáeldri sér að hrópa úr framtíðinni. Þú hefur nefnilega heilmargt við framtíðar-þig að segja, þegar þú verður komin að enda þessa blessaða lífs.

En málið er að framtíðar-þú er dálítið hræddur við enn-eldri-þig. Það eru allir pínu hræddir við að verða gamlir. Og að hrörna. Gleyma. Geta ekki eitthvað. Það er eins og hræðslan renni í brjóstið á okkur með aukinni ábyrgð. Þegar við erum farin að skipta miklu meira máli þá verðum við hrædd. Hrædd um að standa okkur ekki. Hrædd um að bregðast börnunum okkar. Hrædd um að eitthvað komi fyrir. Ein algengasta ástæða þess að fullorðnu fólki líður illa er að það er kvíðið. Og veit oft ekki einu sinni hverju það kvíðir. Það er einhvernveginn eins og kvíði og hræðsla verði að skyldu. 

Þú sérð þetta mjög vel þegar þú spyrð foreldra þína hvort þú megir fara á ball. Eitt augnablik segja þau ekki neitt. Þá eru þau að hugsa. Þegar þau loks svara eru þau búin að spila stuttmynd í huganum með þig í aðalhlutverki. Í myndinni ferð þú á ball, verður ólétt, missir fóstrið, verður barin og nauðgað og svo ertu skilin eftir dáin í skurði. 

Er nema von að foreldrar þínir skilji þig ekki?

Við vitum hvað eldgamla þú myndi skrifa til framtíðar-þín. Það bréf hefur nefnilega verið skrifað nú þegar. Af argentísku skáldi sem vissi að hann færi bráðum að deyja. Og vissi að það var orðið of seint að lifa aftur. En kannski gæti hann náð til einhvers sem ætti meira líf eftir. Viltu lesa bréfið?

Hér er byrjunin:

Augnablik

Ef ég gæti lifað aftur
myndi ég reyna að gera fleiri mistök
ekki reyna að vera svona fullkominn, ég myndi slappa betur af
vera meiri kjáni en ég hef verið
raunar, taka ekki svona margt alvarlega
ég myndi ekki vera svona snyrtilegur
taka fleiri áhættur
taka oftar frí
ígrunda sólsetrið oftar
klífa fleiri fjöll, synda í fleiri ám
heimsækja staði sem ég hef aldrei komið til
borða meiri ís og færri baunir
fást við fleiri alvöru vandamál og færri gervi.


Finnst þér ljóðið minna á mann með hatt þegar þú sérð það svona? Af hverju skyldu menn nota hatta? Er svo slæmt að verða blautur um hárið?

Nema hvað. Skoðaðu síðustu línuna. „Fást við fleiri alvöru vandamál en færri gervi.“ Hvað er alvöru vandamál? Og hvað er gervivandamál?


Ekki gleyma að þú ert líka ég


Myndir þú segja við sjálfa þig ef þú fengir tækifæri til eftir að hafa lifað kannski svona álíka mikið í viðbót og þú hefur gert nú. 

Heldur þú að þú myndir vilja minna þig á að fá hærri einkunn á samræmdu prófunum eða safna í lífeyrissjóð?

Varla. Þegar maður er 16 eru það sannarlega gervivandamál.

En það er samtsemáður tvennt við þessi orð sem þú ættir að taka doldið alvarlega. Í fyrsta lagi þýðir þetta:

Ég er hér (í framtíðinni) fyrir okkur.

Þér er því óhætt að gera eitthvað í dag sem framtíðar-þú kemur til með að klára. Þú getur sett niður eplatré í dag og framtíðar-þú mun tína eplin og sjá til þess að þú fáir að njóta þeirra.

En þetta þýðir líka annað:

Þú ert hér (í nútíðinni) fyrir okkur.

Og ef þú sóar nútíðinni þá bitnar það ekki á neinum nema sjálfri þér í framtíðinni. Ef þú notar ekki tækifærið til að mennta þig núna, mun framtíðar-þú hafa það töluvert mikið verra en þyrfti. Og mundi, framtíðar-þú ert þú. Það er í sjálfu sér ekkert betra að vera stunginn með nál í baugfingur en litlaputta. Það er jafnsárt.

Og ef þú tekur heimskulegar og óþarfar ákvarðanir í nútíðinni vegna þess að þú þarft ekki að díla við afleiðingarnar núna – þá er ég hræddur um að framtíðar þú myndi gjarnan vilja teygja sig gegnum vef tímans og grípa í hnakkadrambið á þér.

En það er ekki hægt.

En það er hægt að læra að þekkja sjálfan sig. Fortíðar-þú fattaði að hún átti þessar tær. Nútíðar-þú getur fattað að hún á framtíðar-þig.

Kíktu á þetta myndband. Hér er fólk að reyna að ná í sjálft sig í fortíðinni.

En það er ekki hægt.






No comments:

Post a Comment