Saturday, September 17, 2011

Þverstæður

Forn-Grikkir eyddu miklum tíma í að reyna að skilja heiminn. Þales frá Míletos áttaði sig t.d. á því að hlutir geta breyst úr einu efni í annað. Einfalt dæmi er hvernig maturinn breytist í þig. Við þessa uppgötvun varð heimspekin til. Og vísindin líka. Þales var með þeim fyrstu, ef ekki sá allra fyrsti, til að velta fyrir sér náttúrufræðilegum skýringum á heiminum – en ekki goðsagnarkenndum. Menn hafa nefnilega, þrátt fyrir að hafa alltaf viljað skilja umhverfi sitt, hlaupið auðveldustu leiðina að því – og útskýrt allt með vísan í eitthvað yfirnáttúrulegt, guðlegt eða galdra.

En Þales gekk of langt. Honum fannst að fyrst eitt efni geti breyst í annað þá geti öll efni á endanum breyst í eitt efni. Og hann hélt að heimurinn allur væri úr einu frumefni – sem öll önnur efni yrðu til úr.

Röksemdafærslan var reyndar nokkuð sannfærandi og byggði bæði á rökhugsun og athugunum.

Hugsun okkur að stór hluti næringarinnar komi úr matjurtagarðinum okkar. Þar erum við með gulrætur, epli, kál og fleira. Til þess að fá þetta grænmeti þurfum við að sá fyrir því. Frjóin fáum við úr eldri gulrótum, eplum o.s.frv. þannig að þau útskýra sem slík ekki hvaðan þetta kemur allt. En það er ofsalega mikill munur á fræi og heilum ávexti. Fræið verður að ávexti sem síðan myndar nýtt fræ. Það sem lætur ávöxtinn stækka og þroskast er það sem ávöxturinn er búinn til úr.

Og hvað þarf til að láta ávöxt stækka.

Það þarf vatn. Og það þarf mold.

Vatnið fellur af himni. En hvaðan kemur moldin?

Jú, Þales bjó við sjó og tók eftir einu. Skoðaðu þessa mynd:


Þetta er Akureyri.

 

Og þetta er Hjalteyri, sem er líka við Ejafjörð – bara aðeins norðar.

Landnámsmenn Eyjafjarðar, Helgi magri og Þórunn hyrna byggðu sér bæ þar sem heitir Kristnes. Þegar þau settust þar að var Kristnes alveg við sjó. Í dag eru margir kílómetrar út í fjöru. 

Hvernig skyldi standa á því?

Jú, það er sama ástæða fyrir því og fyrir þessum undalegu eyrum sem standa út í Eyjafjörð. Eyrarnar voru ekki þarna en hafa myndast smám saman. Þar sem einu sinni var bara sjór skagar núna land út í fjörðinn.

Sumstaðar myndast ekki svona eyrar heldur óshólmar. 


File:Nile River and delta from orbit.jpg

Hér sérðu hvar áin Níl rennur út í miðjarðarhafið. Niður eftir öllu Egyptalandi rennur hún sem eitt straumfljót en þar sem hún kemur til hafs myndar hún breiða árósa með mörgum hólmum. Þú sérð líka hvernig Níl hefur stækkað Egyptaland út í Miðjarðarhafið. Og ef þú tekur vel eftir sérðu að það er verið að byggja enn meira við landið úti við ströndina þar sem sjórinn er fullur af aur og leðju.

Eyri er úr aur (leðju) og Þales tók eftir því að eyrar byggjast upp við sjó. Alltíeinu er komið land þar sem ekkert land var. Og það virtist ekkert þurfa ... nema á. Og á er úr vatni. 

Af þessu dró Þales þessa ályktun: Aurinn (moldin) verður til í vatni og er þessvegna búin til úr vatni.

Ertu sammála þessari ályktun?

En ef moldin sem ég rækta grænmetið í er búin til úr vatni og það þarf vatn til að grænmetið og ávextirnir vaxi þá er margt heimskulegra en að segja að ávextirnir og grænmetið sé ... vatn.

Og það hélt Þales.

Heimspekin og vísindin voru fædd.

Leið nú nokkur tími og heimspekingar (sem voru hinir fyrstu náttúruvísindamenn) komu sífellt með flóknari hugmyndir um veruleikann – þar til kom fram á sjónarsviðið náungi sem hét Parmenídes. Hann hélt því fram að Þales og aðrir sem væru að reyna að skilja heiminn væru á tómum villigötum. Það væri ekki nóg að horfa á heiminn því ef maður hugsaði aðeins þá sæi maður (ekki með augunum) að heimurinn er alltöðruvísi og flóknari en hann virðist í fyrstu. Lærisveinn hans Zenón útskýrði pælinguna á bak við þetta mjög vel í nokkrum dæmum sem varðveist hafa í eðlisfræðiritum Aristótelesar (sem var langmesti vísindamaður fornaldar).

Dæmi Zenóns kallast þverstæður. Þverstæða merkir að eitthvað stangast á, passar ekki saman. En það er ómögulegt að vita hvort er rétt.

Tökum dæmi: Ör er skotið í mark. Við sjáum að hún fer frá einum stað á annan á ákveðnum tíma. En hugsum nú augablik hvar hún hafi verið rétt eftir að henni var skotið af stað. Hún var í loftinu. En hvar. Getum við bent á einhvern ákveðinn punkt og sagt að örin hafi verið nákvæmlega þar? Ef svo er þá erum við að segja að á tilteknu augnabliki hafi örin verið kyrr á tilteknum punkti. En augnabliki seinna hafi hún verið komin á annan punkt aðeins nær markinu. Að leið örvarinnar í mark sé röð af kyrrstæðum augnablikum. En örin getur ekki verið kyrr og að hreyfast í einu og ef hún er að hreyfast þá getur hún ekki verið kyrr, það er enginn staður sem hægt er að benda á að hún hafi verið á.

Ég veit þetta virkar flókið. Enda reiknaði Aristóteles með því að menn væru svo fimir í rökhugsun að þeir réðu vel við að skilja þetta svona. En ætli flest venulegt fólk klóri sér ekki bara í hausnum og segi: „Og hvað?“

Kannski þess vegna voru þverstæðurnar margar. Og sú skýrasta er kannski þessi:

Maður ætlar út úr herbergi. En áður en hann getur farið út úr herberginu þarf hann að ganga hálfa leiðina að dyrnum. Hversu oft þarf hann að labba hálfa leiðina út áður en hann kemst út?

Hugsaðu þig vel um.

Zenón segir: endalaust oft. Því hann þarf alltaf að fara helminginn af leiðinni sem er eftir sama hversu hún er orðin stutt. Og ef maður þarf að ganga endalaust oft eftir leiðinni út þá tekur það endalausan tíma. Maður kemst því aldrei út!

En nú vitum við að maður kemst út.

Og þar liggur þverstæðan. Zenón var ekki að reyna að sanna að maður kæmist ekki út úr herbergjum. Hann var að sanna að maður ætti ekki að geta það ef heimurinn virkaði eins og maður heldur að hann eigi að virka. Og þar af leiðandi: að heimurinn sé ekki eins og við höldum að hann sé. Að hann sé blekking.

Það er nefnilega ekki nóg sönnun að maður sjái eitthvað eða geri eitthvað. Þú getur komið löðrandi sveitt úr hlaupi og hitt mann sem segir: „Þú veist þú hljópst ekki neitt, er þa ekki?“ Og þegar þú ætlar að hlæja að honum fyrir heimskuna hringir vekjaraklukkan og þú fattar að þetta var draumur. Parmínedes og Zenón sögðu að heimurinn væri þannig. Hreyfingin væri blekking, einhverskonar draumur. Það væri hægt að sanna það með því að skoða hreyfinguna, hún meikar ekki sens.

Síðan eru liðin nærri 2.500 ár. Vísindum hefur fleygt fram. Við höfum skoðað smæstu hluti í smásjám og fjarlægustu hluti í stjörnusjónaukum. En samt er ég hræddur um að venjulegur nútímamaður gæti lítið sagt til að stinga upp í Zenón eða Parmínedes ef nútímamaðurinn kæmist einhvernveginn til Grikklands hins forna.

En það var svosem reynt. Einhverjir sögðu að heimspekingar væru bara furðufuglar sem ekkert mark væri takandi á. En einn stakk upp á lausn. Og það merkilega var að lausnin byggði ekki á því að sanna að skynfærin væru betri til að skilja heimin en skynsemin. Hann notaði skynsemina til að ganga lengra.

Það var Demókrítos. 

Demókrítos sagði: Það var rétt hjá Þalesi að heimurinn væri búinn til úr efnum sem geta myndað önnur efni. En í stað þess að leita að einu efni í kringum okkur sem býr til öll hin hefði Þales átt að hugsa um hvað veldur því að efnin geta þetta.

Mold og vatn geta breyst í epli og epli getur breyst í kjöt. Af þessu leiðir að það er hægt að taka mold í sundur og setja saman upp á nýtt sem hluta af epli. Mold er úr einhverjum einingum sem hægt er að kubba úr. 

Í raun höfum við ástæðu til að ætla að allt efni sé svona. Búið til úr pínulitlum kubbum sem hægt er að púsla saman í stærri hluti. 

Og þessi hugmynd smellpassaði við veruleikann. Hlutir hverfa og birtast. Og þótt Parmínedes og Zenón hafi sagt að það hljóti að vera eitthvað rugl, þá er það rosalega rökrétt ef hlutirnir breytast svona vegna þess að þeir eru búnir til úr minni hlutum sem raða sér bara saman upp á nýtt. Og ef þessir litlu hlutir eru óbreytanlegir og eilífir þá er vandamálið að vissu leyti úr sögunni. Og næstum örugglega ef við ákveðum að þessir hlutir séu svo litlir og sterkir að það sé ekki hægt að brjóta þá í sundur í minni kubba.

Þá er hægt að segja: leiðin út úr herberginu er skrilljón milljón kubba löng. Það er hægt að fara hálfa leið út ákveðið oft, en þegar það er bara einn kubbur eftir þá er ekki hægt að fara álfa leið því helmingurinn af svona kubbi er ekki til. Kubburinn er minnsta eining veruleikans. Það verður því að fara einn kubb enn, og þá er maður kominn út.

Nú veit ég ekki hversu sannfærandi þér finnst rök Demókrítosar. En það er heilmikil glóra í þessu hjá honum er það ekki?

Þessa kubba kallaði hann a-tomos, ó-deili. Eitthvað sem ekki er hægt að skipta upp. Ódeilanlegt. Óskiptanlegt. Frumeind. Atóm.

Saturday, September 3, 2011

Geimverurnar í Roswell


Eftir lesturinn átt þú að vita...

...að einhverjir hafa trúað því áratugum saman að geimverur hafi lent við Roswell í Nýju-Mexíkó (BNA) árið 1947. 
...að bandarísk stjórnvöld sögðu að veðurloftbelgur hefði hrapað þar þrátt fyrir að fréttamaður hafi heyrt talað um disk 
....að um var að ræða fágaðan hlerunarbúnað sem átti að hlusta eftir kjarnorkusprengingum í Sovétríkjunum. 
...hlerunarbúnaðurinn byggði á svokölluðum SOFAR-rásum sem eru bæði í sjó og lofti. 
...SOFAR-rás virkar þannig að hún getur flutt hljóðbylgjur þúsundir kílómetra vegna þess að bylgjurnar festast í ákveðinni hæð / á ákveðnu dýpi. 
...að bylgjur beygja ef þær fara úr einum miðli í annan sem ber þær á öðrum hraða.  
...að með þessu móti má festa bylgju t.d. í ljósleiðara (einföld útgáfa ljósleiðara er vatnsbuna)....þessi beygja er líka ástæða þess að maður sér hillingar. Heitt loft yfir vegum beygir ljósið þannig að manni sýnist brot af himninum liggja á jörðinni. 
...að hvalir nýta sér SOFAR-rásir hafsins til samskipta. 
...að Bandaríkjamenn notuðu rásirnar til að bjarga strandaglópum.

ÞEIR SEM VILJA trúa á samsæri geta ævinlega fundið sannindamerki skoðanna sinna. Það mun vera óefað að einhver hjá hinu opinbera sagði eitthvað á þessa leið í talstöð: „Við höfum fundið brotlenta diskinn.” Og einhver blaðasnápur var að hlera talstöðina og birti fréttina sem er hér efst um fljúgandi disk sem hefði hrapað. Eins er vitað að hið opinbera leiðrétti fréttina og sagði að þarna hefði hrapað veðurloftbelgur. Sú skýring hefur lengi verið tortryggð.


Hið opinbera laug. Þetta var enginn veðurbelgur. Skýringin krefst skilnings á náttúrulögmáli og tíðaranda kalda stríðsins. Hún mun vera þessi (með tæknilegum inngangi):
Í lok síðari heimsstyrjaldarinnar voru allir flugmenn yfir kyrrahafinu þjálfaðir í ákveðinni björgunaraðferð. Væru þeir skotnir niður yfir hafi, eða lentu þar af öðrum ástæðum, áttu þeir að láta fyrirberast í gúmmíbátum. Þegar þeir hefðu komið sér fyrir áttu þeir að taka úr farangri sínum lítið egg úr málmi og kasta í sjóinn. Hefði þeim ekki verið bjargað innan tiltekins tíma áttu þeir að kasta öðru eggi.


Hefðu nú Japanir krækt í eitt svona egg hefðu þeir líklega skoðað það í krók og kring. Á endanum má telja líklegt að þeir myndu saga það í tvennt til að sjá hvað væri innan í því. Hefðu þeir gert það hefðu þeir ekkert fundið, eggið hefði virst vera fullt af ammrísku lofti.
Eggjaráðgátan hefði orðið Japönum torleyst. Samt byggði hún á örfáum og vel þekktum staðreyndum. Bylgjur ferðast ekki á sama hraða í gegn um öll efni. Þannig ferðast t.d.hljóð töluvert hraðar í gegn um klettavegg en gufu. Ljós ferðast hraðast í lofttómi en hægt er að hjóla hraðar en ljósið kemst í gegn um sum efni.
Aðstæður ráða miklu um hraða bylgju. Þannig ferðast sjávaralda hraðar á djúpum sjó en grunnum (aldan hækkar þegar hún hægir á sér og inniheldur því sömu heildarorku hvort sem hún ferðast hratt eða hægt). Þegar alda nálgast land hækkar hún og hægir á sér og getur þar munað miklu. Þú tækir t.d. ekki eftir tsunami-flóðbylgju úti á rúmsjó, hún skytist á ógnarhraða framhjá þér.


Þessi hraðabreyting getur látið bylgjuna beygja. Sjávaröldur lenda yfirleitt hornrétt á ströndinni (ef þú horfir út á sjó sérðu ölduna koma inn í áttina að þér hvar sem þú stendur á ströndinni). Það er vegna þess að aldan beygir þegar hún kemur á grunnan sjó. Ef þú ímyndar þér öldu eins og langt strik og hún kemur skáhalt inn að strönd þá kemur annar endi öldunnar í grynnið á undan hinum. Sá endi hægir á sér en hinn endinn ekki. Við það beygir aldan í átt að ströndinni. Hið sama gerist í ljósi þegar það brotnar í prisma. Ljós hægir á sér við að lenda á glerinu og beygir, þar sem engir tveir litir ljóssins beygja jafn mikið kemur það út úr prismanum aðskilið.
Nema hvað. Hillingar yfir heitu malbiki eru sama fyrirbærið og hér er lýst. Ljósið ferðast hraðar í heitu lofti en köldu og þar sem myndin af himninum kemur ofan í heita loftpollinn yfir malbikinu hraðar sá hluti ljósbylgjunnar á sér sem næst er jörðu (er í mestum hita), við það beygir bylgjan í átt frá jörðu og getur lent á andliti einhvers sem er að koma akandi eða gangandi. Sá sér þá bút af himninum þar sem hann býst við að sjá veginn. Þessi bútur lítur út eins og vatn.
Þá að hermanninum sem kastar málmegginu í sjóinn. Hljóðbylgjur ferðast hratt í heitum sjó en hægt í köldum; þær ferðast ennfremur hratt í þéttum sjó en hægt í þunnum. Nú vill svo til að þessir eiginleikar vinna gegn hvorum öðrum í venjulegum sjó. Sjórinn kólnar eftir því sem þú kemur dýpra í hann (og þá hægir á hraða hljóðs) en um leið þykknar hann (undan fargi vatnsins fyrir ofan) og það hjálpar hljómburði. Við þessar sérstöku aðstæður myndast á ákveðnu dýpi lag í sjónum sem ber hljóð einstaklega vel. Fyrir ofan og neðan þetta lag ferðast hljóð hraðar en í laginu sjálfu. Vegna hitans fyrir ofan, vegna þrýstingsins fyrir neðan. Hljóð sem á upptök sín í þessu lagi (eða rás) getur borist langar leiðir. Hvalir hafa löngu lært að hlusta eftir öðrum hvölum og kalla á þá í þessu lagi, á þessu tiltekna dýpi. Mér skilst að hvalur við Íslandsstrendur gæti auðveldlega kallast á við hval við England með þessu lagi.
Ástæðan er auðvitað beygja bylgnanna. Hljóðið berst í allar áttir frá upptökum sínum. Mjög lítið af því stefnir beina línu frá íslenska hvalnum til þess enska. En fjöldinn allur af hljóðbylgjum stefnir í sömu meginátt — en hallar upp eða niður miðað við hvalina. Þetta hljóð lokast inni í rásinni og ferðast alla leið á milli dýranna. Því í hvert skipti sem hljóðið ætlar upp kemur toppur þess í heitan sjó og gefur í, við það fellur bylgjan fram fyrir sig og niður aftur, alveg þangað til botn bylgjunnar kemur í þétta sjóinn og gefur í. Við það sveiflast bylgjan upp. Og svo koll af kolli. Nákvæmlega svona virkar ljósleiðari líka.
Þessar rásir eru kallaðar því viðeigandi nafni, SOFAR-rásir.
Þetta vissu ammrískir í lok heimsstyrjaldar en ekki Japanir. Eggið góða var hannað til þess eins að falla saman undan þrýstingi á réttu dýpi. Þannig væri hægt að láta smellinn berast langar leiðir. Kafbátar voru á vakt allan sólarhringinn á mismunandi stöðum og með því að athuga hvenær hvaða kafbátur heyrði smell var hægt að staðsetja hinn hrapaða hermann án vandkvæða. Allt voða sniðugt en engum sögum fer af því hvort þetta var einhverntíma notað.
Komum við þá aftur að Roswell.
Það er í raun enginn grundvallarmunur á lofti og láði. Þetta eru aðeins misþykk efni. Andrúmsloftið er mjög misheitt. Eins og allir þekkja þá kólnar það eftir því sem ofar dregur (og þynnist) en svo hitnar það aftur rækilega í töluverðri hæð. Án þess að orðlengja við það grunaði ammríska vísindamenn að nákvæmlega samsskonar hljóðrásir væru í himnunum eins og höfunum.
Að hvaða gagni skyldi slík hljóðrás koma í upphafi kalda stríðsins? Jú, Sovétmenn höfðu svosem ekki farið dult með öfund sína á kjarnorkusprengju Bandaríkjamanna. Það var vitað að þeir unnu að smíði einnar slíkrar. Það sem ekki var vitað var hvort það hefði tekist hjá þeim. Bandaríkjamenn voru með alla anga úti við að reyna að komast að því. Þótt kjarnorkusprengja gefi frá sér dálítið vænan hvell þá voru Sovétríkin nokkuð stór og því auðvelt að leyna sprengingunni. En ef, og hér var stóra óvissan, hljóðrásir væru sæmilega stöndugar í loftinu átti að vera hægt að hlera alla leið kring um hnöttinn með vel staðsettum hljóðnemum. Ein leið var að fljúga um með hlerunarbúnað í eftirdragi, önnur var að senda upp belgi. Og ef maður sendi nógu marga belgi var hægt að finna hljóðuppsprettuna jafn auðveldlega eins og gúmmíbátinn forðum.
Það var þetta sem var í gangi í Roswell. Hið opinbera var að senda upp leynileg eyru fest neðan í breytta veðurloftbelgi. Tilgangurinn var sá að hlusta eftir kjarnorkusprengingum vestan úr Síberíu. Enn fer engum sögum af sérsökum árangri. En þeir sem muna eftir kalda stríðinu eða þekkja til þess kannast vel við paranojuna sem heltók hálfan heiminn.
Hljóðnemar voru á þessum tíma afar klaufalegar gæjur. Þeir voru strengdir með gormum innan í einhverskonar diska og það var sú lögun sem hinn bláeygði opinberi starfsmaður var að vísa þegar hann sagðist hafa fundið diskinn. Fréttamaðurinn sem hleraði dró svo sínar ályktanir af því og þótt stjórnvöld mótmæltu þá olli hin „hvíta” lygi því að enn finnst fólk sem finnst eðlilegt og skynsamlegt að draga langsóttustu og klikkuðustu ályktunina af öllu saman.


Að uppgötva sjálfan sig



.

Sérðu punktinn?

Þessi punktur ert þú. Þú byrjaðir sem okfruma (frjóvgað egg) sem var næstum nakvæmlega jafn stór og punkturinn í lok þessarar málsgreinar.

Settu höndina á skjáinn við hliðina á punktinum. Ótrúlegt, ekki satt? Að heil manneskja skuli hafa komið úr einum litlum punkti. 

Á einhverjum tímapunktri byrjaðir þú að skynja heiminn í kringum þig. Kannski var það strax í móðurkviði. Þú heyrðir hljóð, sást liti og rakst þig í. Breytir um stellingar og fékkst hiksta. 

Svo fæddist þú. 

Og heimurinn þinn stækkaði á einu augnabliki enn meira en þú hefur stækkað úr þessum punkti.

Þegar þú eignast lítið systkini eða lítið barn lærir þú að raunverulega það eina sem gera þarf fyrir barnið fyrsta árið er að láta því líða vel. Halda því hreinu og heitu og gefa því að borða. 

Ja, og reyndar eitt enn. Það þarf að leika við barnið. Hefur þú einhverntímann pælt í því hvernig leiki maður fer í við oggulítil smábörn. Leggur maður þau á gólfið og kastar í þau bolta? Setur þau út í horn og fer í feluleik?

Nei. 

Næstum ósjálfrátt högum við stóru manneskjurnar okkur allar eins þegar við erum ein með pínulitla fólkinu. Við látum þau grípa í fingurna okkar, syngjum „þumalfingur, þumalfingur, hvar ert þú...,“ gerum gjugg í borg og tökum í tásurnar og segjum með skærri smábarnarödd: „Hver á svona sætar tásur?“

Við spyrjum ekki vegna þess að við vitum ekki svarið. Við spyrjum vegna þess að þau vita ekki svarið. Pínulítil börn hafa ekki hugmynd um hver á þessar tásur. Þau vissu ekki einu sinni að þetta hétu tásur til að byrja með. Þú hefðir eins getað dregið upp kleinuhring.

Við fæðumst með stóran haus og lítin búk. Það þýðir að fyrstu vikurnar gerum við fátt annað en að liggja á bakinu og horfa upp í loftið. En þessi stóri haus gerir það að verkum að smám saman förum við að læra.

Í dag getur verið að þú notir orðtakið að þekkja einhvað jafnvel og lófann á þér. Það merkir að þekkja eitthvað mjög vel. Þekkja það svo vel að það sé eiginlega ekki hægt að þekkja það betur. En skyldir þú þekkja lófann á þér sérlega vel? Myndir þú þekkja þinn lófa á mynd? Ertu viss?

Þú ert enn að læra að þekkja sjálfa þig. Heilinn á þér er orðinn nógu stór og nógu þroskaður til að það sé hægt að byrja á öðrum kafla í uppskriftabókinni sem var þessi litli punktur. Operation: Fullorðinn er hafin.

Innan í þér er verið að breyta öllum fjandanum. Efnum er dælt út í blóðið sem aldrei hafa fengið að koma þangað áður. Frumurnar hamast við að reyna að taka við þessum efnum og breyta vinnubrögðunum í framhaldinu. Sumar frumur éta sundur bein alla daga meðan aðrar byggja ný bein svo þú dettir ekki í sundur. Markmiðið er að gera þig sjálfstæða. Sjá til þess að þú getir, í neyð, séð um þig sjálfa ef á þarf að halda. Og að þú getir séð um aðra.

Ef þú ert stelpa þá bíða öll börnin þín þegar innan í þér. Þú fæddist með öll eggin sem þú munt nota um ævina. Þau bíða róleg í eggjastokkunum þínum. Smám saman telur líkaminn óhætt að taka sénsinn á að egg hitti sáðfrumu og sendir það af stað. Á sama tíma tekur þú heil ósköp af blóði og næringu og hleður innan á veggina í leginu. Barnið verður að fá eitthvað að borða ef það skyldi vera á leiðinni.

Svo siglir þetta egg eitt og yfirgefið niður eggjaleiðarana. Ef það frjóvgast ekki fer það sína leið burt úr líkamanum. Og er úr sögunni. Molnar niður og hverfur. Og á eftir því kemur blóðið og næringin. Og þú ferð á túr.

Eitt egg                                                           .

Smábarnið þekkir ekki á sér tærnar. En ert þú mikið skárri. Hver ert þú? 

Hvaða hæfileikum býrðu yfir? Við hvaða aðstæður ertu hamingjusömust? Hvaða matur gefur þér mesta orku? Hvernig strákum verður þú hrifin af? Eða stelpum? Hvers vegna segirðu sumt af því sem þú segir? 

Það er eitt við þig sem þú veist næstum örugglega ekki. Eða hefur allavega ekki hugsað út í. Það fer einhvernveginn framhjá öllum. Fyrr en mjög seint. Og þegar maður uppgötvar það þá hugsar maður: Bara ef ég gæti farið aftur í tímann og talað við mig þegar ég var sextán. En það er ekki hægt. 

Viltu vita hvað næstum allir myndu segja við sjálfa sig ef þeir gætu sent bréf aftur í tímann?

Það er ekki sérlega flókið. 

Menn myndu segja: 

Ekki gleyma að þú ert líka ég.


Já, þeir myndu minna þig á að þú ert ekki bara eitthvað. Þú ert líka einhvertíma. Sextán ára manneskja er búin að lifa einn fimmta ævinnar. Litli putti er kominn. Allir hinir eftir. 

Þú ert nefnilega svo miklu meira en litli putti. Þú ert öll höndin.

Alveg eins og punkturinn var þú þá ert þú líka þú þegar þú verður tvítug eða þrítug eða fimmtug. 

Hugsaðu þér að höndin á þér virkaði þannig að þú gætir aðeins notað einn fingur í einu. Hversu margt gætir þú ekki gert?

Þú gætir ekki skrifað (nema mjög hægt á tölvu), þú gætir ekki gripið utan um neitt. Þú gætir í raun voða fátt. Það væri alveg jafn gott að hafa bara einn fingur en ekki fimm.

Og hugsaðu þér ef vorið væri tekið úr sambandi við sumrið. Og sumrið við haustið. 

Það væri fínt. Í smá stund. Eða þar til maður uppgötvaði að allt það virkilega mikilvæga tekur tíma. Þarf tíma. Maður fer út í garð og sáir pínulitlu fræi (álíka stóru og punktur) í mold. Nokkrum mánuðum seinna á maður nóg að borða. 

Af hverju myndi fullorðna þú vilja minna þig á að þú ert líka hún? Jú, af tveim ástæðum. Hún man hvernig var að vera þú. Hún veit að þegar maður er unglingur þá lifir maður í núinu. Núna er allt. Allt sem maður gerir ræðst af því hvaða afleiðingar það hefur fyrir mann núna. Unglingi dytti ekki í hug að gróðursetja tré sem hann þyrfti að bíða í tíu ár eftir að yrði stórt. Unglingi dytti ekki í hug. Fyrir unglingi  kemur hann sjálfur eftir tíu ár eða tuttugu honum ekki við. Ekki frekar en tærnar komu honum við þegar hann var vikugamall.

Þú ert enn að uppgötva þig. Þú átt eftir að uppgötva að þú átt sjálfa þig að miklu lengur en þú heldur. Þú átt eftir að verða svo miklu meira en þú ert nú. Þú ert bara byrjunin. Þú átt eftir að skipta svo miklu meira máli en þú gerir nú. Þú átt eftir að deila þessu lífi með öðru fólki. Fólki sem þú elskar, jafnvel meira en sjálfa þig. Þú átt eftir að fá hugmyndir sem enginn í milljarðasögu mannkins hefur hugsað. Af öllu því fólki se byggir heiminn átt þú eftir að vera sú manneskja sem skiptir einhvern annan öllu máli. Börnin þín, makann þinn, vin þinn.

Þú átt eftir að elska, hlæja, gráta oftar og af meiri dýpt en þú hefur nokkru sinni gert. Þú átt eftir að rifna úr stolti og skjálfa úr skömm. Þú átt allt eftir. Þú ert nöglin á litlaputta. Það eru fjórir eftir. Og þessir fjórir eiga eftir að koma þér stöðugt á óvart. 

Hugsaðu þér ef okfruman færi að velta fyrir sér framtíðarhorfum sínum. 



Hvað get ég?


Hún kæmist ekki einu sinni af sjálfsdáðum upp stiga. Kæmist ekki til enda þessarar setningar. Hún situr föst.

En við skulum ekki vorkenna fullorða þér of mikið. Hann er sjálfur fastur í sínu núi – þótt yfirsýn hans yfir farin veg gefi honum kærkomið tækifæri til að messa yfir þér nú. Ef hann settist nú niður sjálfur og hlustaði þá gæti hann heyrt í ennþáeldri sér að hrópa úr framtíðinni. Þú hefur nefnilega heilmargt við framtíðar-þig að segja, þegar þú verður komin að enda þessa blessaða lífs.

En málið er að framtíðar-þú er dálítið hræddur við enn-eldri-þig. Það eru allir pínu hræddir við að verða gamlir. Og að hrörna. Gleyma. Geta ekki eitthvað. Það er eins og hræðslan renni í brjóstið á okkur með aukinni ábyrgð. Þegar við erum farin að skipta miklu meira máli þá verðum við hrædd. Hrædd um að standa okkur ekki. Hrædd um að bregðast börnunum okkar. Hrædd um að eitthvað komi fyrir. Ein algengasta ástæða þess að fullorðnu fólki líður illa er að það er kvíðið. Og veit oft ekki einu sinni hverju það kvíðir. Það er einhvernveginn eins og kvíði og hræðsla verði að skyldu. 

Þú sérð þetta mjög vel þegar þú spyrð foreldra þína hvort þú megir fara á ball. Eitt augnablik segja þau ekki neitt. Þá eru þau að hugsa. Þegar þau loks svara eru þau búin að spila stuttmynd í huganum með þig í aðalhlutverki. Í myndinni ferð þú á ball, verður ólétt, missir fóstrið, verður barin og nauðgað og svo ertu skilin eftir dáin í skurði. 

Er nema von að foreldrar þínir skilji þig ekki?

Við vitum hvað eldgamla þú myndi skrifa til framtíðar-þín. Það bréf hefur nefnilega verið skrifað nú þegar. Af argentísku skáldi sem vissi að hann færi bráðum að deyja. Og vissi að það var orðið of seint að lifa aftur. En kannski gæti hann náð til einhvers sem ætti meira líf eftir. Viltu lesa bréfið?

Hér er byrjunin:

Augnablik

Ef ég gæti lifað aftur
myndi ég reyna að gera fleiri mistök
ekki reyna að vera svona fullkominn, ég myndi slappa betur af
vera meiri kjáni en ég hef verið
raunar, taka ekki svona margt alvarlega
ég myndi ekki vera svona snyrtilegur
taka fleiri áhættur
taka oftar frí
ígrunda sólsetrið oftar
klífa fleiri fjöll, synda í fleiri ám
heimsækja staði sem ég hef aldrei komið til
borða meiri ís og færri baunir
fást við fleiri alvöru vandamál og færri gervi.


Finnst þér ljóðið minna á mann með hatt þegar þú sérð það svona? Af hverju skyldu menn nota hatta? Er svo slæmt að verða blautur um hárið?

Nema hvað. Skoðaðu síðustu línuna. „Fást við fleiri alvöru vandamál en færri gervi.“ Hvað er alvöru vandamál? Og hvað er gervivandamál?


Ekki gleyma að þú ert líka ég


Myndir þú segja við sjálfa þig ef þú fengir tækifæri til eftir að hafa lifað kannski svona álíka mikið í viðbót og þú hefur gert nú. 

Heldur þú að þú myndir vilja minna þig á að fá hærri einkunn á samræmdu prófunum eða safna í lífeyrissjóð?

Varla. Þegar maður er 16 eru það sannarlega gervivandamál.

En það er samtsemáður tvennt við þessi orð sem þú ættir að taka doldið alvarlega. Í fyrsta lagi þýðir þetta:

Ég er hér (í framtíðinni) fyrir okkur.

Þér er því óhætt að gera eitthvað í dag sem framtíðar-þú kemur til með að klára. Þú getur sett niður eplatré í dag og framtíðar-þú mun tína eplin og sjá til þess að þú fáir að njóta þeirra.

En þetta þýðir líka annað:

Þú ert hér (í nútíðinni) fyrir okkur.

Og ef þú sóar nútíðinni þá bitnar það ekki á neinum nema sjálfri þér í framtíðinni. Ef þú notar ekki tækifærið til að mennta þig núna, mun framtíðar-þú hafa það töluvert mikið verra en þyrfti. Og mundi, framtíðar-þú ert þú. Það er í sjálfu sér ekkert betra að vera stunginn með nál í baugfingur en litlaputta. Það er jafnsárt.

Og ef þú tekur heimskulegar og óþarfar ákvarðanir í nútíðinni vegna þess að þú þarft ekki að díla við afleiðingarnar núna – þá er ég hræddur um að framtíðar þú myndi gjarnan vilja teygja sig gegnum vef tímans og grípa í hnakkadrambið á þér.

En það er ekki hægt.

En það er hægt að læra að þekkja sjálfan sig. Fortíðar-þú fattaði að hún átti þessar tær. Nútíðar-þú getur fattað að hún á framtíðar-þig.

Kíktu á þetta myndband. Hér er fólk að reyna að ná í sjálft sig í fortíðinni.

En það er ekki hægt.






Friday, September 2, 2011

Líffræði: Magavöðvar

Smelltu hér til að hlusta.

Ef þú skoðar mynd af beinagrind sérðu að það er eins og það vanti í hana. Frá rifbeinum til mjaðmagrindar hangir líkaminn uppi á engu nema mjórri hryggjarsúlu.


Beinin hafa margvíslegt hlutverk. Fyrir utan að halda líkamanum uppi og stuðla að hreyfingu þá hafa þau mikilvægt hlutverk við að verja líffærin. Hjartað er varið með brynplötu og rifbeinum, sem taka öll högg og dreifa álaginu á brjóstkassann svo hjartað verði ekki fyrir skaða. En neðri hluti meltingarfæranna og efri hluti æxlunarfæra kvenna virðist furðu illa varin – því ef undan er skilið lífbeinið (sem er brynvörn fyrir legið) þá eru engin bein sem verja kviðinn að framan.

Samtsemáður eru þessi líffæri ágætlega varin – og ef maður hugsar út í það að kona þarf að hafa pláss fyrir fóstur sem þarf að geta stækkað mánuðum saman – þá er augljóst að það er ekki hægt að hlaða brynvörn utan um æxlunarfæri kvenna.

En af hverju haldast þá innyflin á sínum stað?

Jú, þau eru innan í hálfgerðum vöðvapoka. Hann má sjá á þessari mynd.


Efst er þindin (diaphram). Hún er öflugur vöðvi sem liggur neðan við lungun og stýrir þar m.a. öndun (ásamt millirifjavöðvum). Veggirnir eru næfurþunnur en gríðarlega mikilvægur vöðvi sem kallast þvervöðvi kviðar eða kviðarþvervöðvi (transversus abdominis). Að framan er svokölluð hvít lína (linea alba) en hún er trefjaríkt svæði sem liggur niður kviðinn miðjan. Stundum verður hvíta línan áberandi hjá óléttum konum fyrir neðan nafla og myndar þá dökka rönd (svarta línan) – en þá hefur hún dregið í sig litarefni. Botninn á þessu vöðvahólfi eru grindarbotnsvöðvar (pelvic floor muscles). Það er mjög mikilvægt fyrir bæði kyn að hafa þá sterka og öfluga. Stundum vill svo til að þeir slakna (t.d. eftir fæðingar). Þá geta komið vandamál eins og þvagleki. En slakir grindarbotnsvöðvar eru alltaf slæmir og gera það að verkum að það vantar mikilvægan stuðning við vöðvakerfið. Þá er hætt við að öðrum vöðvum sé beitt rangt til að bæta upp fyrir það – og þá koma gjarnan fram skemmdir með tilheyrandi sársauka. Bakið í þessum vöðvapoka eru litlir og stuttir djúpbakvöðvar (multifidus). Þeir liggja á milli hryggjarliða og eru mjög stuttir en margir. Af þeim kemur mikill stuðningur.

Þetta vöðvakerfi styður við líffærin og þótt þessir vöðvar séu ekki endilega þeir mest áberandi þegar kemur að hreyfingu þá eru það einmitt þessir vöðvar sem skipta mestu máli – t.d. í þjálfun íþróttamanna.

Þegar maður hugsar um magavöðva er hætt við að maður hugsi fyrst og fremst um six-packið.


Vöðvinn á bak við six-packið er stór og sterkur og liggur frá lífbeininu til brjóstkassans. Þegar hann er örvaður styttist hann og dregur annaðhvort brjóstkassann í átt að mjöðmum (t.d. við kviðæfingar) eða mjaðmir upp að brjóstkassa (t.d. fótlyftur).




Þessi stóri og glæsilegi vöðvi heitir kviðbeinn (rectus abdominis) og er í raun og veru meira en nógu sterkur í flestu fólki. Það þarf ekki að styrkja hann þótt sumu fólki þyki voða flott að hafa hann sem stærstan.

En sterkur kviðbeinn er lítils virði án sterkra hjálparvöðva. Ef skávöðvar eða djúpvöðvar eru veikir þá skiptir engu máli hvað kviðbeinninn er stór eða sterkur, fólk mun samt fá verki og/eða skemmdir.

Algengasta æfingin til að þjálfa kviðbein eru svokallaðar kviðæfingar (magaæfingar). Þær eru ekki sérlega góðar æfingar. Þær eru þó strax aðeins skárri ef þær eru gerðar ofaná bolta, því þá ná vöðvarnir að hreyfast alla leið í báðar áttir og æfingin reynir líka á jafnvægi. En sá sem getur gert magaæfingu á bolta er líklega hvorteðer í svo góðu formi að hann þarf ekki á magaæfingum að halda. Og hann getur náð enn betri árangri fyrir magavöðvana með sumum tegundum upphífinga.

Við höfum tvær tegundir af vöðvafrumum. Eina sem getur unnið mjög hratt. Aðra sem getur ekki unnið hratt en hefur meira úthald (svo er reyndar til blanda). Allar lyftingaæfingar sem snúast um að lyfta hlutum eða toga í hluti eða ýta á hluti hratt og oft æfa bara aðra tegundina. Æfingar sem snúast um að veita mótstöðu, halda spennu án þess að hreyfa sigreyna á hina tegundina. Stundum er betra að gera æfingu mjög hægt.

Til dæmis þarf maður að gæta sín mjög þegar maður æfir lærin og magavöðvana. Neðsti hluti baksins er mjög viðkvæmur. Á milli allra hryggjaliðanna eru litlir púðar sem innihalda vökva. Þessir púðar taka og milda öll högg sem líkaminn verður fyrir (t.d. bara við það að ganga eða hlaupa). Á nóttunni safnast vatn í þessa púða og þeir verða þykkir (og þú verður örlítið hærri en þú varst kvöldið áður). Ef þú ferð beint á fætur og í ræktina (eins og margir gera) þá mátt þú ekki gera hvaða æfingu sem er. Púðarnir eru þynnri að aftanverðu en framanverðu og það þarf ekki nema halla sér harkalega fram og þeir geta rifnað. Þá lekur úr þeim vökvinn og maður fær það sem kallað er brjósklos. En brjósklos er mikill verkur í baki sem leiðir yfirleitt niður í aðra löppina. Það sama getur gerst í hnébeygjum ef maður liggur í sæti og ýtir fast í lóð þá lyftist rassinn og mjóbakið yfirleitt aðeins frá sætinu og þá er mikil hætta á brjósklosi. Margir þurfa í skurðaðgerðir við vandanum.



Ef maður ætlar að lyfta eða æfa í tækjasal þá er mjög mikilvægt að fara í gegnum hverja einustu æfingu með góðum þjálfara. Það er svo auðvelt að skemma eitthvað. Maður þarf að læra hverja einustu æfingu alveg rétt. Örlítið röng líkamsstaða getur valdið miklu skaða ef æfingin er endurtekin nógu oft.

Maður þarf að endurtaka æfingu nokkur hundruð sinnum. Eftir það er hún föst eins og forrit í heilanum. Sá sem er góður í fótbolta þarf ekki að hugsa í hvert skipti sem hann sparkar í boltann. Líkami hans man það og sér um það fyrir hann. En ef hreyfing er lærð röng er miklu meira mál að leiðrétta hana en að læra hana til að byrja með. Maður þarf að endurtaka hana rétt í nokkur þúsund skipti áður en líkaminn skilur hvað maður er að reyna að gera og skiptir röngu hreyfingunni út.


Thursday, September 1, 2011

Saga efnafræðinnar 1



Stundum er sagt að efnafræði hafi orðið að raunverulegri fræðigrein árið 1661 þegar Róbert Boyle gaf út bókina Efasemdarefnafræðingurinn. Það var fyrsta bókin sem gerði skýran greinarmun á efnafræðingum og gullgerðarmönnum. Gullgerðarmenn kallast þeir sem árhundruðum saman reyndu að búa til gull og önnur verðmæt efni úr ódýrum og auðfengnum efnum.

Það reyndist er
fitt fyrir efnafræðina að rjúfa þessi tengsl eins og sést til að mynda á fullyrðingum hins þýska Jóhanns Bechers sem var handviss um að hann gæti gert sjálfan sig ósýnilegan ef hann fengi til þess réttu efnin.

Ekki er allt gull sem glóir

Þessi óljósu skil raunverulegrar efnafræði og gullgerðarinnar koma einkar skemmtilega í ljós í uppgötvun Þjóðverja að nafni Hennig Brand árið1675. Brand hélt að hægt væri að framleiða gull úr þvagi manna (líklega hefur liturinn átt sinn þátt í því). Hann geymdi fimmtíu fötur fullar af hlandi í kjallaranum hjá sér svo mánuðum skipti. Með margvíslegum aðferðum tókst honum að framleiða einhverskonar krem úr þvaginu og á endanum vaxkennt efni. En auðvitað ekkert gull.

Honum til mikillar furðu sá hann að með tímanum byrjaði efnið að glóa. Enn furðulegra var að þegar það komst í snertingu við loft þá átti það til að fuðra upp á svipstundu.

Nýja efnið vakti mikla athygli og var brátt kallað fosfór, sem er dregið úr grísku og táknar ljósberi. Fosfór er notaður í sjónvarpsskjái í dag enda glóir hann ef hann verður fyrir rafeindageisla. En á þessum tíma áttu menn í mesta basli með að framleiða hann enda mjög tímafrekt og dýrt. Sveitir hermanna voru látnar útvega hráefnið en framleiðslan svaraði ekki kostnaði. Nýja efnið reyndist á endanum dýrara en gull.


Karl Scheele


Upp úr 1750 tókst sænskum efnafræðingi að nafni Karl Scheele að framleiða enn betri fosfór og var það uppgötvun hans sem varð til þess að Svíþjóð var, og er, í framabroddi í framleiðslueldspýtna í heiminum.

Scheele var óvenju afkastamikill efnafræðingur en um leið sérstaklega lánlaus. Hann uppgötvaði átta frumefni, þeirra á meðal klór, flúor, megnesíum, köfnunarefni, og súrefni, en naut ekki heiðurs fyrir neitt þeirra. Í öllum tilvikum var ýmist horft framhjá uppgötvunum hans eða hann tilkynnti þær svo seint að aðrir höfðu í millitíðinni gert sömu uppgötvun og fengið heiðurinn af þeim.

Hann uppgötvaði einnig fjölmargar efnablöndur, t.d. ammoníak og glýserín, og var fyrstur til að sjá möguleikann á því að nota klór sem bleikingarefni. Allt voru þetta uppgötvanir sem gerðu einhverja aðra vellauðuga.

Stærsti og alvarlegasti gallinn við Scheele sem efnafræðing var sú tilhneiging hans að bragða á öllum efnum sem hann vann með. Þar á meðal öllum eitruðustu efnum sem þá voru þekkt. Árið 1786, þegar hann var aðeins 43ja ára, kom þessi forvitni honum í koll. Hann fannst látinn á vinnustofu sinni umkringdur fjölbreyttu úrvali baneitraðra efna. Á andliti hans mun hafa verið fastur svipur sem lýsti í senn undrun og andstyggð.

Lífsandinn

Þrátt fyrir umtalsverðar framfarir í efnafræði á þessum árum voru fjölmargir efnafræðingar sem beittu kröftum sínum í leit að hlutum sem ekki voru til. Meðal vinsælla efna voru ímyndað gas sem framkallar eldinn þegar eitthvað brennur og élan vital, efnið sem gefur dauðum hlutum líf. Margir töldu að hægt væri að skapa líf með þessu ímyndaða efni og öflugu raflosti. María Shelley nýtti sér þessa hugmynd til fullnustu í bók sinniFrankenstein.

Lavoisier

Það þurfti einhvern sérstakan til að ýta efnafræðinni inn í nútímann. Sá reyndist vera Frakki að nafni Antoine-Laurent Lavoisier. Hann fæddist árið 1743 og tilheyrði smáaðli, faðir hans hafði keypt nafnbót handa fjölskyldunni. Lavoisier keypti hlut í stofnun sem kallaðist Ferme Général (Almenna bændabýlið) árið 1768. Stofnunin var fyrirlitinn af almenningi. Hún sá um innheimtu skatta fyrir konunginn. Þrátt fyrir að Lavoisier hafi verið bæði góðgjarn og skapmildur er hvorugt hægt að segja um Ferme Général. Það innheimti enga skatta af ríkum, aðeins fátækum, og gjarnan eftir geðþótta eða þörfum eigendanna.

Þetta tryggði Lavoisier góðar tekjur. Á hátindi sínum hafði hann sem samsvarar um 1,6 milljarði króna í árslaun. Þessar tekjur notaði hann til að sinna sínu aðal áhugamáli, vísindunum.

Hann giftist snemma fjórtán ára gamalli dóttur eins af yfirboðurum sínum og munu þau hafa átt einkar vel saman. Hún var afburðagreind og starfaði dyggilega við hlið eiginmanns síns við rannsóknir. Þrátt fyrir að hann ynni langan vinnudag tókst þeim í sameiningu að vinna fimm tíma á dag við vísindarannsóknir (tvo tíma snemma á morgnanna og þrjá á kvöldin) og allan sunnudaginn, sem þau kölluðu jour de bonheur (hamingjudagur). Einhversstaðar fann Lavoisier tíma til að sjá um úthlutun pyssupúðurs, láta byggja vegg utan um París til að klekkja á smyglurum, taka þátt í stofna metrakerfið og vera meðhöfundur að bókinni Méthode de Nomeneclature Chimique, sem varð einhverskonar biblía þeirra sem gáfu nýjum frumefnum nöfn.

Sem meðlimur Konunglegu vísindaakademíunnar (Académie Royal des Sciences) var það hlutverk hans aðtaka afstöðu til þeirra vísndamálefna sem komu inn á borð akademíunnar. Þau voru margvísleg og lutu m.a. að dáleiðslu, fangelsisúrbóta, öndun skordýra og vatnsforða Parísarborgar. Það var við slíkt tækifæri sem Lavoisier hafði nokkuð hörð orð um ungan vísindamann sem bar fyrir nefndina kenningu sína um brennslu. Kenningin var reyndar alröng en vísindamaðurinn ungi fyrirgaf honum aldrei. Hann hét Jean-Paul Marat.

Lavoisier fann aldrei upp nýtt frumefni. Og var þetta þó á tíma þar sem svo virtist sem hver einasti maður sem kæmist yfir eldsloga og tilraunaglas stæði upp með nýtt frumefni á ferilskránni (það átti enn eftir að finna upp tvo þriðju allra frumefna). Ástæða þessa var ekki skortur Lavoisiers á tilraunaglösum. Hann átti þrettán þúsund svoleiðis glös í fullkomnustu tilraunastofu heimsins á þessum tíma.

Hann einbeitti sér að því að taka uppgötvanir annarra og skýra þær og skerpa. Hann kastaði út því sem var illa unnið eða rangt og setti það sem var rétt á rétta staði. Hann áttaði sig á því hvað súrefni (oxygen) og vetni (hydrogen) voru í raun og gaf þeim þau nöfn sem þau bera í dag. Hann fágaði, skýrði og skerpti alla efnafræðina.

En hann gerði merkar uppgötvanir sjálfur og notaði fullkomnu mælitækin sín af kostgæfni. Hann og kona hans uppgötvuðu til dæmis að hlutur sem ryðgar léttist ekki (en það höfðu allir álitið fram að því). Þvert á móti sýndu mjög nákvæmar mælingar þeirra að hlutur sem ryðgar þyngist. Þessi uppgötvun leiddi til lögmálsins um varðveislu massans. Í því felst að hlutir eyðast ekki (eins og menn höfðu talið um ryðgað járn) heldur breyta um mynd. Efnismagn heimsins er alltaf stöðugt og massi hans sá sami. Ef bók brennur þá hverfur hún ekki. Öll efnin sem í henni voru eru enn til staðar, bara í annarri mynd. Ef þú brennir bók í lokuðu kerfi þá er massi kerfisins óbreyttur.

Lögmálið um varðveislu massans var byltingakennt lögmál. En það var ekki eina byltingin í lífi Lavoisiers. Hann lenti í hringiðu frönsku byltingarinnar og var alveg einstaklega illa staðsettur.

Hann var ekki aðeins meðlimur í hinu hataða Ferme Générale heldur hafði hann byggt vegginn utan um París af miklu kappi. Þessi veggur var einnig fyrirlitinn og var með því fyrsta sem byltingarmúgurinn réðst á.

Marat, sem var nú einn af forsvarsmönnum byltingarinnar, notaði sér þetta til að benda á að löngu væri orðið tímabært að taka Lavoisier af lífi. Stuttu seinna var Ferme Générale lagt niður. Og skömmu eftir það var Marat myrtur í baði af ungri konu að nafni Charlotte Corday. En það var of seint fyrir Lavoisier.

Árið 1793 var Ógnarstjórnin í hámarki. Í október var María Antoinette hálshöggvin og mánuði seinna var Lavoisier handtekinn meðan þau hjónin voru að ráðgera flótta til Skotlands. Hann var ásamt hinum meðlimum Ferme Générale fluttur fyrir Byltingarréttinn (en þar var einmitt stór brjóstmynd af Marat) og eins og meirihluti meðlimanna fluttur beint á Byltingartorgið (sem í dag heitir Place de la Concorde). Þar stóð aðal fallöxi borgarinnar.

Fyrst horfði Lavoisier á tengdaföður sinn hálshöggvinn og síðan stóð hann á fætur og mætti sömu örlögum. Það liðu ekki þrír mánuðir þar til Robespierre, aðalmaðurinn á bak við Ógnarstjórnina, mætti sömu örlögum á sama stað. Það voru endalok Ógnarstjórnarinnar.

Hundrað árum eftir dauða hans var reist stytta af Lavoisier í París. Hún naut mikillar hylli og aðdáunar þar til einhver benti á að hún væri ekkert lík honum. Höggmyndameistarinn var yfirheyrður og viðurkenndi að hann hefði notað höfuðið af Markgreifanum af Condorcet sem var heimspekingur og stærðfræðingur. Hann hafði átt aukahöfuð og hafði vonað að enginn tæki eftir því þótt hann notaði það í staðinn fyrir að gera nýtt. Og ef einhver tæki eftir því vonaði hann að öllum væri sama.

Og það reyndist rétt. Styttan fékk að standa óbreytt allt þar til hún var rifin niður í Seinni heimsstyrjöldinni og notuð í brotajárn.