Saturday, October 29, 2011

Oft þarf bara eina hugmynd...


Þegar maður er ungur áttar maður sig ekki á því að maður getur haft áhrif á heiminn í kringum sig. Maður eyðir mestum tíma í að læra að gera hlutina rétt og skilja heiminn í stað þess að læra að gera heiminn betri á einhvern hátt.

Til allrar hamingju eru alltaf einhverjir sem láta sér ekki nægja heiminn eins og hann er, heldur leita leiða til að gera hann betri.

John Lennon á einu sinni að hafa sagt sögu af því þegar hann byrjaði í skóla. Mamma hans hafði ítrekað sagt honum að það sem skipti mestu máli í lífinu væri að verða hamingjusamur. Þegar hann svo byrjaði í skóla var honum sett fyrir að segja hvað hann vildi verða þegar hann yrði stór. Hann svaraði: „Hamingjusamur.“ Kennararnir sögðu að hann hefði ekki skilið verkefnið. Hann svaraði að þeir skildu ekki lífið.

Nú ætlum við að skoða þrjár hugmyndir sem eiga það allar sameiginlegt að vera snjallar lausnir á bráðum vanda. Og samt svo einfaldar.

Fyrsta hugmyndin spratt upp í MIT-háskóla (Massachusetts Institute of Technology) í BNA. Innan skólans starfar hópur sem leitar leiða til að auðvelda fólki í hinum fátækari hluta heimsins lífið án þess að það þurfi að kosta mikla peninga eða vera erfitt í framkvæmd.

Með því að horfa á það sem fólk hafði og gat auðveldlega nýtt sér varð til verkefni sem kallast Lítri af ljósi eða Isang Litrong Liwanag.


Verkefnið er sáraeinfalt. Það snýst um að lýsa upp híbýli fátæks fólks sem oft býr í þéttum og myrkvuðum smáhýsum. Það er gert með því að setja vatn í plastflösku og festa hana með ákveðnum hætti í bárujárnsplötu. Með því að koma flöskunni fyrir í þaki húsanna nær dagsbirtan að dreifast um innviði hússins með ótrúlegum en einföldum hætti.

Með þessu móti sparast rafmagn og þeir sem ekki hafa rafmagn fá ljós án þess að tapa miklu af skjóli og hita.

Þið getið skoðað verkefnið betur á tenglunum hér að ofan. Sá fyrri vísar á feisbúkk-síðuna og sá síðari á heimasíðu verkefnisins.



Önnur hugmyndin sem við tökum fyrir er örlítið flóknari en gegnir svipuðu hlutverki.



Þetta er William Kamkwamba, ungur maður frá Malaví. Hann ólst upp í fátæku og frumstæðu þorpi þar sem hann hafði hvorki rafmagn né önnur nútíma þægindi. Þegar foreldrar hans gátu ekki lengur borgað skólagjöldin fyrir hann ákvað hann að mennta sig sjálfur. Í því skyni fór hann á hverjum degi á bókasafn og reyndi að lesa sér til.

Líf hann breyttist þegar hann rakst á þessa bók:


Þegar hann blaðaði í gegnum Using Energy sá hann að með vindmyllum var hægt að framleiða bæði ljós og dæla vatni. Hann áttaði sig strax á því að slíkt yrði þarfaþing fyrir þorpið og byrjaði að reyna að smíða vindmyllu. Hann var 14 ára. Þar sem hann átti enga peninga til að kaupa hluti í vindmylluna leitaði hann á ruslahaugunum að efni sem hann gat notað. 

Hann fann plaströr sem hann sagaði sundur og hitaði yfir eldi þar til þau byrjuðu að bráðna. Þá tók hann þau af eldinum og flatti út og lét kólna. Síðan festi hann blöðin á bambusstangir með vírum og hófst handa við að reisa mylluna. Mylluna reisti hann úr gúmmítrjám og hún varð 5 metra há. Loks notaði hann hluta af gömlu reiðhjóli en á það var festur rafall (sem áður knúði ljósið á hjólinu). Eftir því sem smíðinni vatt fram mættu fleiri og fleiri að horfa á hann. Flestum þótti hann skrítinn og gerðu grín að honum. 

Kvöldið sem hann lauk smíðinni klifraði hann upp í mylluna og tengdi hana við ljósaperu. Það var ekki sterkur vindur en þó blikkaði peran með daufu ljósi af og til. Skyndilega herti vindinn og peran skein mjög skært. William upplifði sig auðvitað sem mikla hetju og horfði stoltur á mylluna sína og fyrsta „ljósastaurinn“ í sögu þorpsins hans. Þetta gaf honum aukinn kraft svo hann reisti tvær myllur í viðbót. Önnur framleiddi rafmagn til að dæla vatni á akur þorpsins og hin framleiddi rafmagn sem hægt var að nota til ýmissa hluta, eins og t.d. að hlaða gsm-síma. 

Það má því segja að þessi eini drengur, sem datt úr skóla því foreldrar hans áttu ekki andvirði 10 þúsund króna hafi fært þorpinu sínu nútímann. Síðan þá hefur William skrifað bók og komið fram opinberlega þar sem hann segir sögu sína. Ég var í smá samskiptum við hann í sumar og hann bað fyrir kveðju til ykkar og bað mig að skila eftirfarandi til ykkar:


„Mig langar að hvetja ykkur til að trúa á að allt sé mögulegt ef maður er tilbúinn að leggja mikið á sig. Ekki gefa drauma ykkar upp á bátinn. Vísindin hjálpa ykkur að verða það sem þið viljið.“

Þriðja hugmyndin er enn flóknari og tæknilegri. Hún kallast V2G. Eins og flestar góðar hugmyndir er hún sáraeinföld.

Eins og þið vitið væntanlega flest er mjög dýrt að eiga bíl. Á Íslandi hefur verið reiknað út að það að eiga nýjan bíl kosti á bilinu 1,1 til 2,2 milljónir að ári (fer eftir verði bílsins, getur orðið miklu hærra). Ef maður hugsar svo út í það hversu lítið við notum bílana (venjulegur borgarbíll stendur óhreyfður 23 klukkutíma í sólarhring) þá er þetta ótrúlega há tala.

Og skoðum nú annað vandamál. Flestir af umhverfisvænustu orkugjöfunum (og þá meina ég sem framleiða ekki gróðurhúsalofttegundir) eru ekki alltaf til taks. Vindorka og sólarorka kemur og fer og hið sama gildir um flesta aðra orkugjafa. Enn hefur ekki verið fundin nein frábær leið til að geyma slíka orku – eða geyma orku almennt. Þess vegna þarf t.d. á Íslandi stöðugt að vera fólk á vakt í stjórnstöð Landsnets sem gætir upp á það að ekki sé sett of mikið rafmagn eða of lítið út í raforkukerfið. Þar sitja menn við stóran skjá eins og þeir séu að spila tölvuleik og reyna að hafa stjórn á raforkuframleiðslu landsins.



V2G eða Vehicle to Grid (Ökutæki tengd við kerfið) er ný hugmynd sem felur í sér að bílar fólks verði í framtíðinni notaðir sem geymslur fyrir umhverfisvæna orku. Þá eru bílarnir útbúnir með stórum og sterkum rafgeymi sem getur geymt heilmikla orku og meðan bíllinn er kyrrstæður (við vinustað eða heimili) er honum stungið í samband við rafkerfið. Hann er þá hlaðinn ef hleðslu vantar en ef raforkuframleiðslan er meiri en notkunin í kerfinu öllu þá fer umframorkan í geymslu í bílunum. Þegar orkuframleiðslan minnkar (eins og á nóttunni eða í logni) eða notkunin eykst þá er alltaf hægt að sækja orku á bílana aftur og setja inn á kerfið.

Með þessu móti færu bílstjórar í lið með orkukerfinu og vel mætti hugsa sér að orkufyrirtækin útveguðu ódýra rafmagnsbíla. Að minnsta kosti er meira en vel mögulegt að fólk fengi borgað fyrir að nota bílana sína svona í stað þess að þurfa að eyða stórfé í eldsneyti.


No comments:

Post a Comment