Monday, October 10, 2011

Venus

Upptaka úr tíma (25 mín)


Þessi pistill er unnin í samstarfi við Stjörnufræðivefinn.



Venus er líklega fallegasta stjarnan á himninum. Hún er óhemju skær. Aðeins tunglið og sólin sjást betur. Ef maður veit hvar á að leita er hægt að sjá hana um hábjartan dag.

Hún er ein af tveim reikistjörnum sem eru nær sólinni en jörðin.

Hægt er að lesa um Venus, aðrar plánetur og fleiri fyrirbæri á stjörnufræðivefnum hér. Allt sem fram kemur í þessum pistli er endursögn á lengri og nákvæmari pistli eftir Sævar Helga Bragason, sem er einn nokkurra sem hefur lagt mikla vinnu á sig til að kynna almenning fyrir undrum stjörnufræðinnar.


jörðin, Venus

En snúum okkur aftur að systurreikisstjörnu okkar, Venusi.

Vegna þess hve Venus er áberandi á himninum, skær og björt, hafa menn lengi vitað ansi hreint margt um reikistjörnuna. Það er til dæmis langt síðan menn áttuðu sig bæði á fjarlægðina til hennar og stærð hennar.

Það sem vekur athygli er að Venus er bæði svipað stór og þung og Jörðin. Þar sem Venus er nær sólu en Jörðin er eðlilegt að árið þar sé styttra en hér – enda er það ekki nema tæpir 225 dagar. Kemur það bæði til af því að leið Venusar (sem er næstum hringlaga, sem er óvenjulegt) um sól er styttri en Jarðar og því að Venus ferðast dálítið hraðar eftir braut sinni en Jörðin.

Aðdráttarafl Venusar er aðeins örlítið veikara en Jarðar (ef lofthjúpar þessara plánetna væru eins myndi hlutur á Venur hrapa tæpa 9 metra á einni sekúndu í stað tæpra 10 á jörðinni). Fjarlægð Venusar frá Sólu eru 72-73% af fjarlægð Jarðar.

Það er því kannski ekki skrítið að menn skyldu láta sig dreyma um það fyrir ekki svo mörgum árum að hugsanlega gæti mannkynið einhverntíma í framtíðinni flutt sig að einhverju leyti yfir á Venus.

Eftir því sem við vitum meira um Venus virðist sá möguleiki sífellt ólíklegri. Og flestir vísindamenn eru sammála um að við ættum að taka ástandið þar svolítið alvarlega. Það er ástæða til að líta á Venus sem viðvörun um það sem getur gerst á Jörðinni ef við gætum okkar ekki.

Því þrátt fyrir að Venus sé bæði vel þekkt og fögur (og hafi oftast í þjóðtrúm verið líkt við ástargyðjur) þá eru fáir staðir í raun og veru óhugnarlegri mönnum.

Og sumt við Venus er beinlínis skrítið.

Venus snýst til að mynda í öfuga átt við allar hinar reikistjörnurnar. Og hún snýst svo löturhægt að það væri hægt að skokka á jöfnum hraða og hafa sólina alltaf á sama stað á himninum. Það er að segja ef hægt væri að skokka á Venusi. Já, eða sjá sólina af yfirborði hennar. En hvorugt er hægt.

„Dagurinn“ á Venus (sá tími sem það tekur plánetuna að snúast einn hring um sjálfa sig) er töluvert lengri en þessir tæpu 24 tímar sem það tekur jörðina að snúast. Venus snýst einn hring um möndul sinn á rúmum 243 jarðardögum. Sem þýðir, eins og Sævar bendir á, að dagurinn á Venus er í raun lengri en árið!



snúningur Venusar

Þannig að Venus er skrítin skrúfa. Snýst hægt og í öfuga átt. Og ferðast næstum fullkominn hring um sólina, ein allra reikistjarna. 

Það hlýtur því eitthvað að hafa komið fyrir Venus sem varð til þess að hún fór að snúast í öfuga átt. En hvað það er veit enginn. Líklegasta kenningin enn um mundir er að eitthvað stórt og mikið hafi klesst á Venus og valdið þessu. Enn hafa þó ekki komið fram önnur sönnunargögn um það.

Ef horft er á Venus með berum augum sjást ekkert nema ský. Það er vegna þess að venjulegt ljós endurkastast af yfirborði skýjanna. Til þess að við gætum séð yfirborð Venusar, eins og hægt er að sjá yfirborð Jarðar úr geimnum, þá verður ljós að komast bæði inn að yfirborðinu og út aftur.

En það er til fleira ljós en sýnilegt og með því að skoða aðrar bylgjutegundir ljóss en „sýnilegt ljós“ er hægt að sjá Venus, jafnvel gegnum þessi miklu ský.

Venus

Og það sem meira er, að með því að skoða gaumgæfilega ljós sem berst frá Venusi er hægt að sjá heilmargt um það hvaða efni ljósið ferðast gegnum. Hvert efni hefur nefnilega þann „hæfileika“ að „stela“ tiltekinni tíðni úr ljósinu og skilja þar með eftir vísbendingar um sjálft sig. Það má líkja þessu við að matarvagni sé ekið gegnum kennarastofuna og svo geta nemendur áttað sig á hvaða kennarar eru á svæðinu með því að skoða hvaða matur hvarf af vagninum. Ef gulrætur og baunabygg er horfið er nokkuð ljóst að Halla er mætt. Ef allur maturinn er farinn er Binni inni.

Þegar haft er í huga að Venus endurspeglar frá sér mjög miklu af sólarljósinu (sem er ástæða þess að maður sér ekki plánetuna sjálfa, heldur aðeins skýin, þá væri alveg rökrétt að álykta að kannski sé ekkert voðalega heitt á plánetunni. En samt er miklu, miklu heitara á Venus en Jörðinni. Og það er ekki bara vegna þess að hún er nær sólinni en Jörðin. 

Hitastigið á Venusi er nærri 500 gráður á selsíus!

Þessi mikli hiti stafar af lofthjúpnum utan um plánetuna. Lofthjúpurinn, sem ástæða er til að halda að hafi einhverntíma verið ekki ósvipaður lofthjúp Jarðar, hefur breyst í ofurheitan bakaraofn – sem gerir Venus að heitustu plánetu sólkerfisins.

Lofthjúpurinn er svo þykkur og mikill að ef maður gæti náð yfirborði Venusar (sem er ekki svo ósvipað yfirborði jarðar enda pláneturnar úr svipuðum efnum) þá liði manni eins og maður væri á kafi í vökva og maður gæti jafnvel svifið langar vegalengdir með lítilli fyrirhöfn. En manni liði svosem ekki vel því loftþrýstingurinn væri ægilegur eða 90 sinnum meiri en við yfirborð jarðar. Maður þarf að kafa niður á kílómetra dýpi í sjóinn til að finna álíka þrýsting á jörðinni.

En sjórinn er einmitt lykilatriðið í því hvers vegna jörðin er þægilegur og góður staður – en Venus brennandi heitt helvíti.

Líklega var einu sinni sjór á Venusi. En nú er þar aðeins skraufaþurr jarðvegur. Venus er virk pláneta, og þar verða eldgos alveg eins og á Jörðinni. Nema hvað ekkert bendir til þess að yfirborð Venusar skiptist í fleka eins og á Jörðinni.

Það sem er líklegast til að hafa falið í sér þessa ofboðslegu hlýnun er sólin sjálf. Fyrir mjög löngu síðan skein hún ekki eins sterkt og hún gerir nú. En smám saman varð hún sterkari uns hún kom af stað ferli á Venus sem ekki varð haldið aftur af. Ferlið má kalla óðagróðurhúsaáhrif.

Í eldgosum fara út í andrúmsloftið margar gastegundur. Þeirra helstar eru vatnsgufa (H2O), koldíoxíð (CO2) og brennisteinsdíoxíð (SO2). Þessar gastegundir eru gróðurhúsalofttegundir. Þær halda hita á plánetunni. Þetta má auðveldlega finna á Jörðinni eftir kalda, stjörnubjarta nótt, þegar allt er ískalt – miklu kaldara en það hefði orðið ef skýjað er. 

Jörðin hefur frábært fyrirkomulag í að eiga við þessar gastegundir, sérstaklega CO2 og SO2. Kerfið virkar þannig að sjórinn drekkur þær í sig og sér til þess að þær safnast ekki fyrir í lofthjúpnum. Smám saman bindast þessi efni við bergið þegar til verða ný setlög. Og þá eru efnin orðin partur af skorpunni, þar til þau sleppa út aftur við eldgos.

En á Venusi hlýnaði svo mikið að sjórinn fór að gufa upp. Við það söfnuðust gastegundirnar (og þar auðvitað helst H2O) fyrir í loftinu og gerðu plánetuna enn heitari. Við það gufaði upp enn meira af sjó, uns ekkert var eftir nema sjóðandi heitur lofthjúpur og þurr jörð.

hringrás koldíoxíðs á Venusi og jörðinni

Það er svosem engin ástæða til þess að mála skrattann á vegginn. En vísindamenn taka örlög Venusar mjög alvarlega. Venus er enda sönnun þess sem getur gerst við plánetu eins og Jörðina ef aðstæður eru óhagstæðar. 

Ekki síst af þessum ástæðum þykir flestum vísindamönnum ofsaleg heimska að halda áfram að dæla gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloft Jarðar eftir að öllum er orðið það meira en ljóst að Jörðin er farin að hitna töluvert vegna þess. Því ef við missum stjórn á hitastigi Jarðar þá er ekki öruggt að aftur verði snúið. Því þótt Jörðin verði kannski engar 480°C þá getur mjög lítil breyting á meðalhita, kannski örfáar gráður gert stór svæði óbyggileg sem nú eru byggð milljónum manna. 

No comments:

Post a Comment